Gildir lögmál skortsins ekki í Reykjavík?


Í UMRÆÐUÞÆTTINUM Íslandi í dag hinn 22. mars síðastliðinn viðurkenndi Alfreð Þorsteinsson að mikill lóðaskortur væri nú í Reykjavík þrátt fyrir að boðnar hefðu verið út fjölmargar lóðir undanfarin tvö ár. Framboð annaði engan veginn eftirspurn. Jafnframt tók hann undir það sjónarmið að nægt land væri til í borginni en að ómögulegt hefði verið að sjá fyrir þá gífurlegu spurn eftir húsnæði sem varð í kjölfar breytinga á lánamarkaði. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, benti hins vegar á í sama þætti, að margsinnis hefði verið varað við hættunni sem fylgdi því að bjóða ekki út lóðir jafnt og þétt því annars gæti safnast upp eftirspurn sem myndi spenna upp húsnæðismarkaðinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Jafnframt minnti Vilhjálmur á að skortur hefði verið á lóðum löngu áður en umræddar breytingar urðu á lánakjörum til húsnæðiskaupa. Fasteignaverð hefði því farið ört hækkandi síðustu ár þótt aukinn kaupmáttur og hagstæðari lánakjör hefðu einnig haft áhrif. Síðar í þættinum skiptust þeir Alfreð og Vilhjálmur á skoðunum en ekki leið á löngu þar til Alfreð greip til einkar undarlegra skýringa til að firra R-listann ábyrgð á þessari óheillaþróun.

Fyrri rangtúlkun Alfreðs Fyrri skýring Alfreðs gekk út á að lóðaskortur væri ekki bara bundinn við Reykjavík. Um væri að ræða almennan skort á lóðum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þannig hefði húsnæðisverð í nágrannasveitarfélögum einnig hækkað í sama takti og innan Reykjavíkur. Við fyrstu sýn virðist Alfreð hafa nokkuð til síns máls en í raun er hér um alvarlegan misskilning á lögmáli framboðs og eftirspurnar að ræða. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu mynda eitt búsetu- og atvinnusvæði og einn markað fyrir íbúðarhúsnæði. Þegar skortur er á lóðum í Reykjavík, langstærsta og fjölmennasta sveitarfélaginu, ræður það úrslitum um þróun fasteignaverðs á svæðinu öllu. Þetta gerist þrátt fyrir að nágrannasveitarfélögin hafi úthlutað mun fleiri lóðum en Reykjavík. Smæð þeirra gagnvart Reykjavík er slík að þeim er um megn að anna þeirri eftirspurn sem heimatilbúinn lóðaskortur í höfuðborginni leiðir af sér. Alfreð gefur hins vegar í skyn að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi sama vægi í samspili framboðs á húsnæði og eftirspurnar þess þótt við blasi að Reykjavík er þar ráðandi afl.

Síðari rangtúlkun Alfreðs Síðar í þættinum gerði Alfreð sig sekan um aðra mistúlkun á lögmáli framboðs og eftirspurnar þegar hann hélt því fram að lóðaskortur væri orðinn það víðtækur að nokkur þúsund manns hefðu nýverið slegist um tæpar fjörutíu lóðir á Selfossi. Sem fyrr væri ekki bara við Reykjavík að sakast, lóðaskortur væri víða vandamál. Ekki hvarflaði að Alfreð Þorsteinssyni að hugsanlega væri fjöldi umsækjenda um þessar lóðir einmitt Reykvíkingar sem kjósa fremur að yfirgefa borgina sína sökum langvarandi lóðaskorts og leita því þangað sem unnt er að fá lóðir á skikkanlegu verði. Ástandið á fasteignamarkaðnum í borginni er nefnilega orðið það ískyggilegt að fólk vill hugsanlega frekar auka akstursvegalengdina til og frá vinnu um röskan hálftíma gegn því að fá lóð á viðráðanlegu verði heldur en að slást um þær fáu lóðir sem í boði eru í Reykjavík og borga vel á annan tug milljóna fyrir. Ef rétt reynist, hvað felst þá í markmiðum R-listans um þéttingu byggðar?

Grein í Morgunblaðinu

#gGuðmundurEdgarsson #g

Related Posts

See All

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square