Skólabúningar - að hætti hersins


UNDANFARIN misseri hefur áróður fyrir skólabúningum gerst æ ágengari og nú er svo komið að innleiðing skólafatnaðar er orðið eitt helsta baráttumál Framsóknarflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum. Má raunar furðu sæta að framsækið afl eins og B-listinn í Reykjavík skuli kenna sig við jafngamaldags hugmynd og skólabúninga. Telja hinir gírugu framsóknarmenn að skólabúningar geti gert margvíslegt gagn m.a. dregið úr einelti og eflt liðsheild. Jafnframt sýni reynslan, segja framsóknarmenn, að skólafatnaður auki sjálfstraust nemenda, dragi úr neikvæðu áreiti og stuðli að betri námsárangri! Og máli sínu til stuðnings nefna þeir reynslusögur ýmissa kennara og foreldra. Gott ef kennararnir sjálfir ætli ekki að klæðast skólabúningum til að efla enn frekar samkennd og námsárangur. En hvað segja rannsóknir?

Að sjálfsögðu að klæðnaður nemenda hefur ekkert að segja um neitt það sem máli skiptir í skólastarfi. Nema síður sé. Eina alvöru rannsóknin sem gerð hefur verið um hugsanleg áhrif skólafatnaðar á skólastarf var unnin af félagfræðingunum David L. Brunsma við Alabama-háskóla og Kerry A Rockquermore við Notre Dame-háskóla í Bandaríkjunum. Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í febrúarhefti tímaritsins Journal of Educational Research árið 1998. Rannsókn þessi var langsniðsrannsókn sem náði til um 5.000 nemenda sem fylgt var eftir úr grunnskóla og í gegnum háskóla á um 10 ára tímabili. Niðurstöður voru þær, að skólabúningar hefðu engin áhrif á hegðun nemenda, mætingu þeirra eða notkun vímuefna. Hið eina sem rannsóknin sýndi var að skólafatnaður stuðlaði að mótþróa hjá sumum nemendum, sem aftur leiddi til lakari námsárangurs en ella væri. Ennfremur benda höfundar rannsóknarinnar á að þegar umbætur verða í skólum þar sem skólafatnaður hefur verið tekinn upp er árangurinn oft ranglega rakinn til skólafatnaðarins og þannig horft fram hjá ýmsum öðrum breytingum sem átt hafa sér stað samhliða t.d. fækkun í bekkjardeildum eða nýjungum í kennsluháttum. Nefna þeir sérstaklega Long Beach-skólaumdæmið í Kaliforníu sem dæmi um slíkan misskilning. Þeir Brunsma og Rockquemore líkja innleiðingu skólabúninga við að gera upp gamalt og niðurnítt hús með því að mála það björtum litum, sem fangi athyglina, en geri ekkert gagn. Í frjálsu lýðræðisríki á ekki líðast að börnum sé skipað að klæðast sömu fötunum dag eftir dag árum saman. Slíkt kallast ill meðferð á börnum. Og í þeim tilfellum þar sem klæðaburður verður tilefni eineltis þá veita skólabúningar enga vörn. Athyglinni er einfaldlega beint annað svo sem að hárgreiðslu viðkomandi eða vaxtarlagi. Enda mætti furðu sæta ef hægt væri að draga úr ofbeldi með hugmynd sem upprunalega er fengin að láni úr hernum. Að auki er hæpið að opinberir skólar geti gert kröfur um tiltekinn klæðaburð nemenda. Hvers má vænta næst? Kröfur um tiltekna hársídd eða klippingu? Hvað segja fræðsluyfirvöld? Hvað segir umboðsmaður barna? Hvað segja framsóknarmenn?

Grein í Morgunblaðinu

#g #gGuðmundurEdgarsson

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square