Rafsígarettan – dæmi um skaðsemi ríkisins

Margir hafa heyrt um hina svokölluðu rafsígarettu (e. e-cigarette). Þetta er lítið tæki sem hitar sérstakan vökva upp og gerir notandanum kleift að „reykja“ hann, þ.e. anda honum að sér. Frá notandanum kemur svo fátt annað en vatnsgufa. Nikótíni er gjarnan blandað í þennan vökva og getur hann því komið í stað reykinga eða annarrar tóbaksnotkunar, en án tjörunnar og hinna krabbameinsvaldandi efni (kostir og gallar nikótínsins halda sér sem fyrr).

Margir hafa tekið þessari tækni fagnandi, sérstaklega reykingafólk sem hefur átt erfitt með að hætta að reykja. Hægt er að fá mismunandi styrkleika nikótíns í vökvann, og hann er gjarnan bragðbættur. Reykingafólk hefur getað „trappað sig niður“ þar til nikótínþörfin er orðin lítil sem engin. Kostnaðurinn við að „reykja“ rafsígarettu er einnig brot af því sem gildir um almennar reykingar, og það getur veitt efnalitlu reykingafólki fjárhagslegt svigrúm sem minnkar fjárhagsáhyggjur þess og þar með þörfina til að reykja til að slaka á.

En hvað gera yfirvöld á Íslandi þá? Þau klóra sér í hausnum og flokka nikótínblandað vatn sem „lyf“ og gera innflutning á því þar með rándýran og óhagkvæman. Svartur markaður hefur því sprottið upp líkt og á fíkniefnamarkaðnum. Vatnsblönduna má þar af leiðandi nánast eingöngu nálgast hjá söluaðilum sem ekki njóta sama aðhalds og lögleg lyfjafyrirtæki og lyfsalar og verslanir almennt. Þetta er að gerast á Íslandi í dag og fáir kippa sér upp við það.

Það er í sjálfu sér athyglisvert að þeir einu á Íslandi sem geta stundað óheft viðskipti með ýmis efni séu óharðnaðir unglingar á hinum ólöglega fíkniefnamarkaði. Þeir hafa sjaldnast mikið fyrir hreinlæti og góðum merkingum á varningi sínu. Við hin, sem eldri og lífsreyndari erum, þurfum að horfa upp á okkar lyfjaviðskipti flækt í net hins opinbera. Hið opinbera er beinlínis að stuðla að því að reykingafólk á Íslandi haldi áfram að soga ofan í sig tjöru og eiturefni í stað þess að geta notið nikótínblandaðrar vatnsgufu.

Vatnsblandan umrædda er ekki eina dæmið um heilsuspillandi áhrif hins opinbera á Íslandi. Heilbrigðiskerfi þess í heild sinni er að mörgu leyti farið að líkjast biðröð í kirkjugarðinn. Einkaaðilar eru beinlínis regluvæddir og skattlagðir út af markaði heilbrigðisþjónustu og meinað að lækna fólk sem bíður í biðröðum hins opinbera. Hið opinbera býður jú upp á „ókeypis“ heilsugæslu, sem er annað orð yfir skammtanir og biðraðir eftir mjög takmarkaðri þjónustu, sem kostar meira og meira enda laus við óþægindi eins og samkeppni og eigendur með persónulega hvata til að stunda arðbæran rekstur.

Er ekki kominn tími til að endurskoða hlutverk hins opinbera? Er ekki kominn tími til að minnka heilsuspillandi áhrif þess?

Grein í Morgunblaðinu.

#g #gGeirÁgústsson

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square