Þak á leiguverð - alls ekki!

Að beygja verð undir vilja markaðarins mun hafa í för með sér skekkju, sem með tímanum mun valda enn alvarlegri húsnæðisskorti en áður.

Þótt mörgum þyki sem í óefni sé komið á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu eru þeir fáir sem átta sig á að ástandið má að miklu leyti rekja til óæskilegra ríkisinngripa í áranna rás og heimatilbúins lóðaskorts í höfuðborginni heldur en til markaðslögmála og gráðugra kapítalista. Hugmyndin um þak á leiguverð er því miður enn eitt dæmið um slík pólitísk afskipti og ber að hafna af tveimur meginástæðum.

Siðgæðisrökin

Fyrri ástæðan snýr að siðferðissjónarmiðum því vart getur það talist eðlilegt, að hið opinbera grípi fram fyrir hendurnar á fullveðja einstaklingum í frjálsum viðskiptum og knýi leigusalann til að leigja íbúð sína vel undir markaðsverði. Hvað leigusala og leigjanda semst um kemur vitaskuld engum öðrum við, a.m.k. ekki þannig að réttlæti ofbeldi ríkisvalds. Hér væri því um afar vafasama lögþvingunaraðgerð að ræða frá sjónarhóli almenns siðgæðis og mannréttinda.

Hagfræðirökin

Hin ástæðan lýtur að hagfræði. Að beygja verð undir vilja markaðarins mun hafa í för með sér skekkju, sem með tímanum mun valda enn alvarlegri húsnæðisskorti en áður. Ástæðurnar eru m.a. þær, að eignum er síður viðhaldið, minna er byggt, húsnæði sjaldnar gert upp, fólk dvelst of lengi í óþarflega stóru húsnæði, og ungt fólk, sem að öðrum kosti byggi lengur hjá foreldrum, flyst fyrr í húsnæði sem fjölskyldufólk hefði brýnni þörf fyrir. Því er hætt við, að lögskipað þak á leiguverð geri ekki einungis vanda þeirra, sem mest þurfa á sómasamlegu húsnæði að halda, stærri en áður, heldur því sem næst óbærilegan.

Losum um markaðinn

Til að kljást við húsnæðisvandann á höfuðborgarsvæðinu þarf að leita lausna sem byggja á lögmálum markaðarins. Þannig þyrfti að auka framboð lóða og nýbygginga í samræmi við aukna eftirspurn, draga úr íþyngjandi byggingarreglugerðum, afnema allar verðbólguhvetjandi niðurgreiðslur ríkisins á húsnæðismarkaði eins og vaxta- og húsaleigubætur og lækka fasteignagjöld og skatta á leigutekjur til muna. Væri þetta gert, kæmist á jafnvægi á húsnæðismarkaði mun fyrr en ella.

Grein í Fréttablaðinu

#g #gGuðmundurEdgarsson

Related Posts

See All

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square