Lifi frelsið

Áramótakveðja frjálshyggjufélagsins 2016

Þá er enn eitt árið liðið þar sem tekist hefur að koma í veg fyrir að hægt verði að kaupa vín samhliða matarinnkaupunum. Þó að flestir frelsisunn

endur skilji nú alveg þá röksemd hversu öflug leið það er til að minnka neyslu guðaveiganna að takmarka aðgengið með ríkiseinokun, þá vekja sömu röksemdir áleitnar spurningar um hvað mönnum gengur eiginleg til í öðrum málum. Af hverju í ósköpunum vilja menn þá einnig ríkiseinokun í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og í öllu öðru sem skiptir okkur máli? Í stað þess að fá að kjósa á hverjum degi með buddunni og sífellt hafa áhrif á þjónustuna til batnaðar, þá er atkvæðarétturinn takmarkaður við fjórða hvert ár. Í hinu opinbera kerfi þar sem búið er að skera á tengsl þess sem veitir þjónustuna og þess sem borgar fyrir hana með því að afsala ákvörðunarvaldi til ábyrgðarlausra milliliða, eins og embættismanna og stjórnmálafrömuða, þá geta oft undarlegir hlutir gerst. Því vald spillir og þeir sem fá óverðskulduð völd munu ávallt sækjast eftir meiri völdum. Liðið ár hefur ekkert verið öðru vísi hvað það varðar.

Í Reykjavík hefur þjónustuhlutverk borgarinnar í skipulagsmálum enn eitt árið færst lengra í átt að alræðisvaldi. Valdi sem bæði er nýtt til tekjuöflunar gegnum lóðabrask og til að ýta í framkvæmd oft vanhugsuðum draumórum valdaelítunnar. Þannig hefur enn eitt árið liðið þar sem stefnan um þvingaða þéttingu byggðar hefur komið í veg fyrir ódýra uppbyggingu íbúða í úthverfum. Einnig hafa borgaryfirvöld hindrað Vegagerðina frá því að leysa úr umferðarhnútum stofnbrauta borgarinnar þrátt fyrir að reykvískir ökumenn hafi þegar borgað fyrir framkvæmdirnar. Fé var þó tekið af Vegagerðinni til að keyra tóma strætisvagna um götur bæjarins. Öryggisbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað á árinu á sama tíma og borgin gerðist hluthafi í hraðlest til Keflavíkur. Þrátt fyrir að hinir stórhuga borgarfulltrúar viti að hundraða milljarða fjárfestingu þurfi til viðbótar til að gera lestarævintýrið að veruleika, þá sér enginn borgarfulltrúi neinn kost í ferðasparnaðinum við að lenda flugvélum á Reykjavíkurflugvelli. Alviska borgaryfirfalda hefur ekki eingöngu takmarkast við samgöngur, því í ár fóru þau einnig að ýta úr vör veitingarekstri við Hlemm. Á sama tíma var bankað upp á hjá öðrum nálægum veitingastöðum og þeim bannað að vera of sýnilegir gangandi vegfarendum eða þeir skikkaðir til að flytja veitingasöluna upp um hæð eins og Hard Rock Cafe, því veitingahúsakvóti bæjarins væri uppurinn. Reykvíkingar sluppu samt við gyðingahatursstimpilinn þetta árið, því í ár var ekki farið hátt með utanríkisstefnu borgarstjórnar og engin viðskiptabönn voru sett á vinaþjóðir.

Í landsmálum var einnig ýmislegt í gangi á árinu. Haldið var áfram með vinnu við að flytja ríkisstofnanir í kjördæmi framsóknarmanna og víkingaklappið var tekið upp við úthlutun gjafa úr vasa skattgreiðenda. Almennt má þó segja að árið hafi verið ár afhjúpana. Panama-málið sprengdi ríkisstjórnina og sendi landsmenn í kosningaóvissuferð sem enn sér ekki fyrir endann á. Tilgangsleysi samkeppniseftirlitsins var afhjúpað af framkvæmdarstjóra MS þegar hann réttilega benti á að sérhver sektargreiðsla sem (einokunarfyrirtækið) MS væri dæmt til að greiða myndi einfaldlega bara hækka verðið til neytenda

Í hinu alræmda Brúneggjamáli afhjúpaðist enn og aftur getuleysi hins opinbera eftirlitskerfis, þar sem í ljós kom að neytendur höfðu verið blekktir í áraraðir með að því er virtist vitund yfirvalda. Þegar markaðurinn hefur talað í þessu máli, þá munu Brúnegg líklega heyra sögunni til, en matvælaeftirlitið er hins vegar yfir dóm markaðsins hafið eins og öll önnur ríkisþjónusta.

Neytendur fá bara að hafa áhrif á hana á fjögurra ára fresti.

Margt hefur þó áunnist í frelsisátt á árinu, sem vekur vonir um að hlutirnir gætu breyst til batnaðar. Tekið var til í byggingarreglugerðinni, þannig að nú þarf ekki lengur að gera ráð fyrir að allir íbúar fjölbýlishúsa séu með barnavagna í sameigninni samtímis og þvottavélar má nú líka staðsetja í eldhúsi. Hver veit? Kannski er öríbúðabyltingin á næsta leiti? Lækkun tolla og vörugjalda hefur síðan skilað því að nú eru stórir aðilar eins og Costco og H&M; farnir að horfa til landsins og von er að vöruverð lækki við það á næsta ári. Einnig hefur aukist viðleitni ríkis og borgar til að auka gagnsæi kerfisins og að gera upplýsingar um opinber fjármál aðgengilegri, sem vonandi mun auðvelda að draga fram í dagsljósið sóun hins opinbera og spillingu sem því kann að fylgja.

Þótt skapandi eyðing hins frjálsa hagkerfis virki stundum miskunnarlaus, þá hefur hún tilgang, því hún læknar heimsku og ýtir út röngum viðskiptaháttum. Á sama hátt og úr ösku hrunsins hafa risið blómleg fyrirtæki sem byggja afkomu sína á raunverulegri verðmætasköpun, þá munu í stað Brúneggja koma nýir framleiðendur með betri viðskiptahætti. Hver veit nema áður en langt um líður verði Ísland land hinna frjálsu hæna? Lifi frelsið. Frjálshyggjufélagið óskar landsmönnum farsæls komandi árs með miklu frelsi.

Grein í Morgunblaðinu

#gJóhannesLoftsson #g

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square