Vald án ábyrgðar

Ef flugvellir fá ekki að þróast eðlilega getur það valdið miklum skaða fyrir land og þjóð

Nú þegar vikulega berast fréttir af lokun Reykjavíkurflugvallar þá hlýtur flestu þenkjandi fólki að vera orðið ljóst þvílík afglöp lokun neyðarbrautarinnar var. Það sem er hvað merkilegast við aðdragandann er að enginn af þeim aðilum sem komu að ákvarðanatökunni bar nokkra ábyrgð og allir eru ónæmir fyrir afleiðingum eigin mistaka. Rekstaraðili flugvallarins (sem ætti að vita betur) taldi t.d. að brautarskilyrði og stærðir flugvéla skiptu engu máli fyrir nýtingarstuðul vallarins og þegar bent var á að nýjar rannsóknir íslenskra veðurfræðinga sýndu að veðurgögnin sem voru notuð, voru eingöngu frá mildu og stillu veðurtímabili, þá lokaði hann eyrunum. ISAVIA gat það alveg, því sem ríkisfyrirtæki með einokunarvernd, þá eru það ávallt skattgreiðendur eða viðskiptavinir sem eru þvingaðir til að bera ábyrgðina. Sama ábyrgðarleysi kemur fram hjá Borgarstjóra þegar honum er tíðrætt um milljarðahagkvæmni Hvassahraunsflugvallar, væntanlega með hina stórfurðulegu Rögnuskýrslu í huga. Í Rögnuskýrslu var hins vegar aldrei unnið neitt hagkvæmnimat heldur var bryddað upp á nýnæmi í áætlanagerð sem kallað var „ábatamat“. Á bls. 80 í skýrslunni segir svo um ábatamatið: „Ekki er tekið tillit til stofn-, fjárfestinga- og rekstrarkostnaðar millilanda- og innanlandsflugvalla í niðurstöðum”. Sem sagt hagkvæmniathugun án tillits til kostnaðar! Svona svipað og fara í Bónus, fylla körfuna, en sleppa að borga. Fyrir venjulegt fólk er svona ábyrgðarleysi algjörlega galið. En um Borgarstjóra gilda önnur lögmál. Hann er ábyrgðarlaus því skattgreiðendur borga alltaf brúsann. Þó að vel gæti hentað einkaaðila að reisa flugvöll í Hvassahrauni á eigin ábyrgð, þá er engin vitglóra í að ISAVIA færi að reka tvo flugvelli á nánast sama stað. Því til viðbótar við 100 milljarða fjárfestinguna sem nýi völlurinn kostar, þá er ISAVIA að undirbúa aðra 100 milljarða uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli næstu 7 árin og það er bara byrjunin. Enginn ábyrgur lánveitandi mun nokkurn tíma lána ISAVIA fé í jafn stefnulausar framkvæmdir sem eru í samkeppni hvor við aðra. Eini aðilinn sem væri viljugur í slíka vitleysu er ríkið. Ríkið er nefnilega líka ábyrgðarlaust því það getur alltaf varpað kostnaðinum (og tapinu) á skattgreiðendur. Neyðarbrautin er þannig bara sýnishorn af mun stærri afglöpum sem við gætum átt von á í framtíðinni. Um einkaaðila í flugvallarrekstri gilda allt önnur lögmál. Ekkert er gefins og þeir þurfa að fjármagna allt með eigin fé. Ef þeir gera mistök þá er það þeirra tap en ekki skattgreiðenda. Með slíkri ábyrgð kemur varkárni, og því er nær útilokað að einkaaðili hefði verið jafnblindur á öryggismál við lokun neyðarbrautarinnar, því ef flugvöllurinn fer úr Reykjavík, þá gætu rekstrargrundvöllur innanlandsflugsins hrunið. Öfugt við ríkisfyrirtæki þá fær einkaaðilinn allan gróðann. Hvatinn til að mæta þörfum markaðsins og bæta og þróa þjónustuna er því mun meiri. En Reykjavíkurflugvöllur hefur verið í náðarfaðmi ríkisins alla tíð. Hvert sem litið er blasir stöðnunin við. Flugbrautir eru stuttar, lendingarljós uppfylla ekki viðmið og við brautarenda skerða tré nýtinguna. Flugstöðin sjálf er síðan frá 1950. Millilandaflug er í mýflugumynd, þrátt fyrir að minni millilandaflugvélar geti notað völlinn. Tekjur af farþegaflugi koma að mestu frá einu flugfélagi, sem er andstætt hagsmunum einkaaðilans, því aukin samkeppni eykur alltaf tekjur flugvalla því lægri fargjöld fjölga farþegum. Þannig liggja samkeppnishagsmunir neytenda og einkaaðila saman á einkarekna flugvellinum, á meðan aukin umferð og núningar milli flugfélaga þýða bara meiri fyrirhöfn og flækjustig fyrir ríkisfyrirtækið. Slæm afkoma innlandsflugvalla ætti því ekki að koma á óvart. En að fara að ráðast á flugið núna, án þess að hafa nokkurn tíman hleypt að rekstrinum ábyrgum einkaaðilum, er afleit hugmynd. Reykjavíkurflugvöllur er frábærlega staðsettur og ótrúlegt að ekki sé reynt að hafa meiri tekjur af ferðasparnaðinum frá Keflavík. Með aukinni velmegun og sívaxandi ferðamannaiðnaði þá er fyrirséð að verulegur vöxtur á eftir að verða í innanlandsflugi. Mesta svigrúm til aukningar ferðaþjónustu er á landsbyggðinni og ef bjartsýnustu spár um áframhaldandi vöxt ganga eftir, þá gæti byggðaþróun jafnvel umturnast á næstu árum samhliða þörfinni fyrir bættar innanlandsflugsamgöngur. Hvað svo ef olía finnst þegar tilraunaboranirnar hefjast árið 2020? Hafa menn hugsað það til enda? Umsvifin sem því fylgdu gætu hæglega orðið af óþekktri stærðargráðu sem bættist ofan á hinn mikla vöxt ferðaþjónustunnar. En ef Reykjavíkurflugvöll vantar, þá skerðist samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins samhliða því að ferðahagræðið hverfur. Eyðilegging Reykjavíkurflugvallar er því afturför sem verður að stöðva. Á tímum hraðs vaxtar, eins og við sjáum í ferðageiranum, þá eru allar fjárfestingar áhættufjárfestingar, sem ábyrgðarlausir embættismenn eiga ekkert erindi í að taka ákvörðun um. Einkavæðing flugvallarreksturs ætti því að verða eitt helsta forgangsmál nýrra stjórnvalda. Aðeins þannig getur greinin þróast eðlilega.

#gJóhannesLoftsson #g

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square