Fordómar í boði RÚV

Þöggun RÚV á skynsamlegri innflytjendaumræðu er ekki ásættanleg fyrir ríkisfjölmiðil

Þjóðverjar í Þýskalandi nasista voru hvorki vont fólk né geðbilað, heldur stolt harðduglegt fólk með hugsjónir og sterkt siðgæðismat að eigin mati, reiðubúið að fórna sér fyrir þjóð sína. Vandamálið við Þýskaland var ekki fólkið, heldur hugmyndafræðin sem það aðhylltist. En eftir að Hitler komst til valda þá þrengdi svo að málfrelsinu að gagnrýnisraddir hættu að heyrast. Fyrir vikið varð fólk óupplýst og áhrifalítið, og ekkert hélt því aftur af illskunni sem eftir fylgdi. Þegar miðaldar hugmyndafræði kirkjunnar byrjaði að mildast eða klofna þá gerðist það í gegnum endurreisnina. Þetta var hugmyndafræðileg bylting drifin áfram af rökhyggju og frjálsum skoðanaskiptum og vilja fólks til að bæta umhverfið í kringum sig. Afstaða kirkjunnar mildaðist og í dag samræmist hún að mestu leyti flestum vestrænum gildum um frelsi og jafnréttindi allra óháð kyni, kynhneigð eða kynþætti. Þegar 5000 Evrópubúar tóku sig til fyrir nokkru og gengu til liðs við íslamska ríkið þá var það ekki vegna þess að þetta væru vondir eða geðbilaðir einstaklingar. Heldur töldu þeir sig vera að gera rétt því þeir voru undir áhrifum frá eitraðri hugmyndafræði sem finnst í sumum íslömskum trúarritum. Eina leiðin til að berjast gegn og breyta slíkum ranghugmyndum er að gagnrýna þær opinberlega. En öfugt við önnur trúarbrögð þá ríkir lítið málfrelsi í gagnrýni á Íslam. Mörgum myndi eflaust bregða ef að 15 ára dóttir þeirra bæði um að sér yrði fundinn eiginmaður og hætti námi því starfsframi væri ekkert fyrir konur. Þeirra hlutverk væri á heimilinu að þjóna eiginmanninum. En hvað ef þetta væri dóttir nágranna þíns sem hefði átt erfitt uppdráttar vegna þess að fjölskyldan hennar var þjóðleg í háttum og þvingaði hana alltaf til að klæðast íslenska þjóðbúningnum? En hvað ef fjölskyldan væri íslamstrúar og klæðnaðurinn trúarlegs eðlis? Til eru þeir sem myndu hneykslast yfir þjóðbúningaöfgunum en sýna trúarsiðunum skilning. En mannréttindi eru bundin einstaklingum en ekki hópum og því er aldrei hægt að réttlæta slíka mismunun vegna kreddu hópa. Til að brjótast úr viðjum afturhalds þarf hugrekki sem kemur ekki alltaf að sjálfu sér. Fyrst þarf að vekja frjálsan vilja fólks til að hugsa í stað þess að hlýða í blindni öllu sem því er sagt að gera. Opin málefnaleg umræða er besti vettvangur til að vekja þennan vilja. Í byrjun sumars kom prýðistækifæri fyrir slíka umræðu þegar einn frægasti gagnrýnandi öfgaíslam, Robert Spencer, kom hingað til lands. Þrátt fyrir að vera þekktur fyrir gagnrýni sem byggir alltaf nær orðrétt á ummælum eða lífi Spámannsins, þá mætti honum hér ofstækislegt fjölmiðlafár. Þannig fannst RÚV það eina fréttnæma úr ræðu hans þegar hann varaði við því að það sem hann segði væri ekki fyrir viðkvæma, en fréttastofan „gleymdi“ að taka fram að þar átti hann einfaldlega við ofbeldisfull fyrirmæli spámannsins sem hann las upp strax í framhaldinu. Viðtal RÚV sem eftir fylgdi gekk síðan aðallega út á aðdróttanir um að Spencer bæri sök á morðæðinu í Útey, sem er vægast sagt undarleg ásökun á fræðimann sem aldrei hefur hvatt til ofbeldis heldur eingöngu bent á og gagnrýnt hatursfull orð annarra. Ákefð íslensku ríkisstöðvarinnar að rægja þennan íslandsvin var það mikil að lítið af því sem hann hafði frá að segja komst að. Síðar um kvöldið þegar Spencer fór út að borða var honum svo byrluð ólyfjan, sem er líklega fyrsti trúarhatursglæpurinn á Íslandi síðan Jón Arason biskup og synir hans voru hálshöggnir hér um árið. Öfgarnar afhjúpaðar Í æsingi sínum í að þagga niður í umræðunni hafði RÚV hins vegar misst af aðalfréttinni. Aðeins annar trúarleiðtogi íslenskra múslima komst á kynninguna því hinn var upptekinn fyrir utan í hópi mótmælenda sem reyndu að trufla fundinn. Þegar meðfyrirlesari Spencer, Christine Williams, lauk máli sínu og bað um spurningar, stóð trúarleiðtoginn upp og krafði hana sönnunar á því að konur væru grýttar í íslömskum ríkjum og bað um full nöfn fórnarlamba, dagsetningu og stað ódæðanna. Honum til skelfingar var þessu auðsvarað af öðrum fundargestum með hjálp smartsíma. Hin neyðarlega afhjúpun á afneitun ímansins á þekktum staðreynum sýnir mikilvægi opinberrar umræðu. Hvaða álit fengjum við t.d. á íslenskum presti sem reyndi að afneita jafn augljósum staðreyndum eða mótmælti málfrelsinu? En í lokuðum hópum er oft enginn til að hrekja vitleysuna og öfgamennirnir stýra umræðunni. Svipað getur gerst ef öll gagnrýni flyst á samfélagsmiðla vegna tregðu ríkisfjölmiðla til að ræða málin af skynsemi. Vanþekking er þannig forsenda fordóma. Flestir vilja bæta líf sitt, og þegar hugmyndafræði trúarbragða takmarkar verulega frelsi fólks verður að ræða hana opinskátt. Þetta voru skilaboð Robert Spencer til Íslendinga: Hófsamir múslímar eru ekki mótfallnir slíkri skynsamlegri umræðu því það þarf að fyrst að tala um öfgarnar áður en hægt er að takast á við þær. Eftir reynslu síðustu áratuga þá ætti flestum að vera ljóst að innflytjendastefna Evrópuríkja án aðlögunarkröfu er ekki að virka sem skyldi. Þarf Ísland virkilega líka að endurtaka þau mistök?

#g #gJóhannesLoftsson

Related Posts

See All

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square