Rúmgóð ný stúdíóíbúð fyrir níu milljónir

Gífurlegur samfélagslegur kostnaður felst í því að þurrka út ódýrasta milliþrep íbúða með þessum hætti.

Hljómar ótrúlega, en þetta gæti samt verið raunin ef ekki væri fyrir tilstilli tilbúinna hindrana núgildandi byggingarreglugerðar, sem bæði hækkar byggingarkostnað allra íbúða og kemur alveg í veg fyrir að hægt sé að byggja minnstu og hagkvæmustu íbúðirnar, sem er nauðsynlegt milliþrep fyrir fólk sem vill ekki skuldsetja sig um of við fyrstu íbúðarkaup.

Í reglugerðinni er m.a. krafist fjögurra fermetra fyrir hjól, barnavagn og geymslu, fjögurra fermetra svala sem þurfa helst að snúa út að götu, auk þess sem settar eru inn kröfur um lofthæð, gangabreidd og rýmisnotkun sem eykur rýmisþörfina enn frekar. Til að byggja hagkvæmt þarf að byggja hátt. En ef fjölbýlishús er meira en tveggja hæða er jafnframt gerð krafa um lyftu og við það verður húsið einnig að uppfylla kröfur um „algilda hönnun“ sem eykur rýmisþörfina enn frekar því þá þarf að miða hönnun við að íbúi sé í hjólastól.

Bestu lausnirnar eru ólöglegar

Of margar reglur búa til staðnað umhverfi og ekkert svigrúm er fyrir nýjar og betri hugmyndir. Það þurfa ekki allir að hafa sérstakt geymslurými fyrir hjól og barnavagn, brunastigi er augljóslega betri flóttaleið en svalir og þvottavél og þurrkara má vel staðsetja í eldhúsi til að spara pláss. Í svokölluðum öríbúðum (sem eru leyfilegar sums staðar erlendis) hafa hugvitssamir arkitektar hannað ýmsar lausnir til að spara pláss, t.d. með því að hafa færanlegan vegg sem tvínýtir plássið eða staðsetja svefnloft fyrir ofan eldhúskrók og bað. Með þessum hætti má vel ná þrjátíu nýtanlegum fermetrum úr minna en tuttugu fermetra íbúð. Fæstar af þessum lausnum standast hins vegar byggingarreglugerð og eftir sitjum við með mun dýrari fyrstu íbúðarkaup en ella.

Alvarlegar afleiðingar

Gífurlegur samfélagslegur kostnaður felst í því að þurrka út ódýrasta milliþrep íbúða með þessum hætti. Gróft áætlað eykst rýmisþörf í séreign og sameign um a.m.k. tíu fermetra fyrir minnstu íbúðirnar, sem ásamt flóknum viðbótarkröfum um svalir, lyftu og algilda hönnun keyrir kostnaðinn verulega upp. Skortur á minnstu íbúðum hækkar síðan markaðsvirði þeirra enn frekar þannig að meðal-Jóninn þarf dæmigert að taka um tíu milljónum króna hærra lán fyrir sinni fyrstu íbúð en ef þessum óþarfa lúxusþörfum hefði ekki verið þröngvað inn á hann. Þessi offjárfesting hækkar vaxta- og rekstrarkostnað íbúðarinnar um sex til átta hundruð þúsund á ári, sem er árlegur kostnaður sem leggst á fólk megnið af lífsleiðinni og hægir verulega á að hægt sé að leggja fyrir einhvern sparnað. Þeir einu sem til skamms tíma græða á þessu eru bankarnir. Til langs tíma græðir þó enginn því of mikil skuldsetning rýfur tengsl fólks við raunveruleikann og býr til bólu sem endist bara fram að næsta hruni.

Nýrrar nálgunar þörf

Þrátt fyrir að núverandi yfirvöld séu farin að gera sér grein fyrir vandanum og hafi hafið einföldun á regluverkinu er engan veginn nóg að gert. Vandinn er mjög alvarlegur og ef það á að nást alvöru árangur duga ekki nein vettlingatök. Grundvallarnálgunin ætti að vera sú að aldrei sé réttlætanlegt að ríkisvaldið skipti sér af frjálsum viðskiptum með þessum hætti og setji reglur sem skilgreini rándýrar lúxusþarfir sem við sitjum síðan uppi með reikninginn af. Enginn getur forgangsraðað okkar þörfum betur en við sjálf og markaðurinn er fullfær um að sjá til þess að lausnir sem henta öllum séu ávallt fyrir hendi.

Boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum með fjölgun félagslegra íbúða og hækkun tekjutengdra húsleigubóta eru engin lausn. Þótt þær geti tímabundið bætt hag sumra eru þessar aðgerðir afar hættuleg fátæktargildra sem refsar fólki sem reynir að afla sér meiri tekna með því að lækka bæturnar og svipta það búseturétti.

Ef sama fólki stæðu til boða ódýrar öríbúðir gætu flestir án nokkurrar aðstoðar náð á örfáum árum að byggja upp eigið fé, sem síðan mætti nota til næstu íbúðarkaupa. Þessi aðgerð kostar ekki krónu en skapar sjálfbjarga einstaklinga. Það eina sem stjórnvöld þurfa að gera er að hætta að þvælast fyrir.

#gJóhannesLoftsson #g

Related Posts

See All

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square