Hverju megum við ráða?

Þegar haft er í huga hversu óvinsælir gömlu fjórflokkarnir eru þá verður að telja með ólíkindum að fólk hafi gefið yfirvöldum slíkt vald yfir lífi sínu.

​​Það er merkilegt til þess að hugsa, að ef þú ert með 500 þ.kr. í grunnlaun kostarðu atvinnurekandann 740 þ.kr. en færð hins vegar ekki útborgað nema 340 þ.kr. Afganginum (400 þ.kr.) er þegar búið að ráðstafa. Mest fer í skattinn. Reyndar svo mikið að það þykir ekki þorandi að birta allan skattinn á launaseðlinum. T.d. er tryggingagjaldið sem á að dekka atvinnuleysisbætur ekki sýnt, en það nemur um 12% af útborguninni sem er ansi vel í lagt nú þegar atvinnuleysi er nær horfið. Einnig er búið að ákveða fyrir okkur hversu löngu fríi við söfnum fyrir og þá lágmarksupphæð sem við verðum að leggja til hliðar í lífeyrissparnað. Ef við vildum frekar nota þennan pening til að borga hraðar niður skuldir þá höfum við ekki það val. Lítil skynsemi er í svona þvinguðum sparnaði því aldrei er hagkvæmt að spara á lágum vöxtum á meðan skuldirnar safnast fyrir á hærri vöxtum. Áhrif okkar á meðhöndlun lífeyrissjóðanna á okkar fé eru síðan það lítil að oft endar það sem fé án hirðis og glatast eins og svo berlega kom í ljós í hruninu.

Þegar við ætlum að nota þau 46% sem okkur er treyst fyrir tekur ekkert betra við.

Virðisaukaskattur leggst á flestar vörur auk þess sem þeir sem þjónusta okkur fá eins og við ekki nema tæplega helming af útborgað. Bæði bílar og eldsneyti eru líka tvöfalt dýrari vegna ýmiss konar álagningar og hafi menn síðan hug á því að drekkja sorgum sínum yfir öllu þessu, þá er ekki nóg með að sopinn sé dýr, heldur eru öll áfengiskaup þvinguð gegnum opinberan smásöluaðila.

Umsvif opinberra fyrirtækja eru síðan ekkert smáræði, en þau eru oft ekkert annað en fyrirtækjavæddar stofnanir í einokunaraðstöðu. Þetta gerir þau ónæm fyrir markaðslögmálum og þjónkun við kúnnann verður því oft aukaatriði. Þannig hækkar orkuverð þegar sala er lítil vegna milds veðurfars. Ruslið í Reykjavík er varla hirt um stórhátíðir og þegar sérfróð flugöryggisnefnd tilkynnir að lokun neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar sé hættuleg, þá er hún rekin. Í Hörpu heimta menn síðan niðurfellingu fasteignagjalda til að bæta samkeppnisaðstöðuna gagnvart einkaaðilum.

Regluverkafarganið er okkur hins vegar dýrast og einkennist af sóun, þar sem sífellt er verið að lauma inn alls konar kröfum sem hafa ekkert með grunnþarfir fólks að gera. Í byggingarreglugerð eru t.d. alls konar lúxuskröfur um sérgeymslu, aðra barnavagna- og hjólageymslu, þvottavéla- og baðherbergi sem að teknu tilliti til innbyrðis tengingar þessara rýma eykur lágmarks fermetraþörf um 10-20 m2. Þetta að viðbættri kröfu reglugerðarinnar um svalir og lyftu á síðan stóran þátt í því að minnstu stúdíóíbúðir eru tvöfalt dýrari en ella. Afskipti hins opinbera af matvælamarkaði eru einnig stórtæk. Seldir eru kvótar í sölu og framleiðslu á ýmiss konar landbúnaðarvöru, þar sem núverandi ráðamenn virðast hafa tekið upp siði danska yfirvaldsins frá tímum einokunarverslunarinnar og telja eðlilegt að gera takmörkun á aðgengi að því að selja Íslendingum mat að féþúfu sinni. Flækjustig pappírsvinnu og eftirlits er síðan sérstakt rannsóknarefni. Vangaveltur um hvort kalla eigi vöru korn eða fræ eða óskiljanlegar kreddur embættismanna um mjólkurinnihald í örfáum karamellusósukrukkum er nóg til að stöðva heilan gám. Gildir þá einu hvort önnur matvara í gámnum skemmist eður ei. Allt þetta flækjustig býr til gríðarlegan kostnað fyrir innflytjendur sem þeir þurfa að varpa út í verðlagið. Eftir stöndum við með matvöruverslanir sem bæði hafa minna úrval og eru tvö til þrefalt dýrari en ella.

Flest þurfum við húsnæði, bíl og mat og því er varla að sjá að við fáum að ráða yfir meira en 20% af sjálfsaflafénu. Restina hirðir ríkið.

Ætla mætti að þetta væru góðar fréttir fyrir stjórnlynt hugsjónafólk og það því sátt með stöðu mála. En langt er frá því að svo sé, því í öllum stjórnmálaflokkum eru ávallt einhverjir sem vilja bæta í. Ekki má fella niður óréttlátan íbúðaleiguskatt, en lítið mál er að eyða stórfé í rándýrar félagslegar íbúðir með tekjutengdan búseturétt og sem fyrir vikið virka sem fátæktargildrur. Einn flokkurinn vill samtímis banna olíuvinnslu og stofna auðlindasjóð að hætti Norðmanna. Rafmagnsöryggi og hálendisvegi má ekki bæta og sumir telja jafnvel óæskilegt að aðrir en þeir séu yfirhöfuð að flækjast í óbyggðum. Aðrir hugsa sér gott til glóðarinnar að fá öflugan ríkisbanka sem yrði líklega ábyrgðarlaus með útlánastefnu sem fylgdi ávallt hugðarefnum ráðandi afla að hverju sinni (svipað og Íbúðalánasjóður gerði svo glæsilega árunum fyrir hrunið).

Á meðan báknið vex þá minnkar sífellt vald einstaklingsins yfir eigin lífi. Þegar haft er í huga hversu óvinsælir gömlu fjórflokkarnir eru þá verður að telja með ólíkindum að fólk hafi gefið yfirvöldum slíkt vald yfir lífi sínu og raunin er. Ef við eigum ekki að enda sem þjóð sem ávallt er undir þumlinum á duttlungum síðasta hæstbjóðanda í kosningum, þá verður að eiga sér stað grundvallar hugarfarsbreyting um að snúa þurfi þessari þróun við. Þörf er á að fólk geti valið stjórnmálamenn sem lofa að gera minna og leyfa meira. Fimmföld laun hljóma hreint ekki illa.

Grein í Morgunblaðinu

#g #gJóhannesLoftsson

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square