Eina skynsama innflytjendastefnan

Óréttlætanleg afskipti yfirvalda hafa búið til fordómafulla innflytjendastefnu sem á eftir að valda verulegum skaða þegar fram líða stundir

Ef útlendingur utan EES vill fá að vinna á Íslandi þá er það hægara sagt en gert. Fyrst þarf atvinnurekandinn að auglýsa starfið bæði á Íslandi og á EES svæðinu og fá umsögn stéttafélags. Aðeins ef enginn jafnhæfur umsækjandi finnst og umsögn stéttafélagsins er jákvæð, þá má ráða hann eftir umfjöllunarferli yfirvalda. Það ferli tekur aðra 90 daga. Hvaða atvinnurekandi ætli nenni að standa í slíku veseni fyrir einn starfsmann? Mismununin er þannig sett í lög. Ef sami útlendingur missir vinnuna og reynir að fá aðra í staðinn, þarf að endurtaka allt ferlið. Og hvernig á hann að lifa á meðan, launalaus? Þetta er svo ómanneskjulegt kerfi að það er ekki nóg með að það ýti fólki út í svarta vinnu heldur skapar það kjöraðstæður fyrir mansal og glæpastarfsemi. Starfsmaðurinn verður nánast eign atvinnurekandans. Velferðarútflutningsiðnaðurinn Þeir sem sækja um hæli fá hins vegar allt frítt. Frítt húsnæði, frítt fæði, fría heilbrigðisþjónustu, fría lögfræðiþjónustu og fría skólavist. Enginn má þó vinna fyrir sér. Oft borgar sig síðan fyrir hælisumsækjandann að takmarka upplýsingagjöfina eða ljúga um bakgrunn sinn og fyrir vikið getur umsóknarferlið orðið afar flókið og tímafrekt. Kostnaður skattgreiðenda er eftir því hár. Flestir fá síðan höfnun, þ.a. sem landkynning þá er uppskeran ansi döpur. Þeir heppnu sem sleppa í gegn, eru síðan leiddir beint á velferðaspenann sem er stærsta fátæktargildra íslensks samfélags. Þeim er reddað húsnæði og alls konar félagslegum stuðningi langt umfram það sem þá gat einu sinni dreymt um í heimalandinu, en leið og þeir fara að vinna í sínum málum þá eiga þeir á hættu að stuðningurinn tapist. Stærstu fórnarlömb velferðarkerfisins eru nefnilega ekki gefendurnir, heldur þiggjendurnir, sem þurfa að sætta sig við að takmörkuð lífsgæði gegn því að hámarka stuðninginn. Innflytjendastefnan virðist þannig í eðli sínu vera útflutningur á velferðarkerfinu þar sem búin er til ný velferðarháð fátæktarstétt sem þegar fram líða stundir mun verða rót sundrungar og fordóma í íslensku samfélagi. Kostnaðarbaggi velferðarinnflytjendanna mun síðan bara vaxa, eins og ýtarlegar rannsóknir á norðurlöndum hafa staðfest. Allt er þetta vegna óafsakanlegra ríkisafskipta og fordóma. Frjálshyggjulausnin Aðkoma ríkisins að innflytjendamálum á eingöngu að takmarkast við öryggisþáttinn. Leggja þarf niður allt hælisveitingakerfið í heild sinni. Fólk sem vill búa hér þarf að geta unnið fyrir sér sjálft eða geta sýnt fram á fullan stuðning einkaaðila (eða góðgerðafélags) á meðan dvöl stendur. Slíkt góðgerðastarf verður alltaf að vera í höndunum á þeim sem borgar með frjálsum framlögum, því ef sá sem gefur gjafirnar ber enga ábyrgð (eins og ríkið gerir alltaf), þá er ekki lengur um góðgerðarstarf að ræða heldur arðrán af einum hópi til að hygla falskri sjálfsímynd annarra sem tíma ekki að borga eigin „góðverk“. Engin takmörk eru á sóuninni og vitleysunni sem slíkt ábyrgðarleysi getur leitt af sér. Öll mismunun gagnvart útlendingum til vinnu á hins vegar engan rétt á sér og um leið og útlendingur hefur sýnt fram á að hann hefur vinnu með nægjanlegum framfærslutekjum, þá á að afgreiða atvinnuleyfið samdægurs. Slíkt er eðlilegt þar sem öryggisúttekt á innflytjendum hefur ekkert með atvinnuleyfi að gera og skortur á atvinnuleyfi veitir almenningi enga vernd ef um hættulegan einstakling er að ræða. Halda þarf öllum nýbúum utan hins opinbera velferðarkerfis a.m.k. fyrstu 5 árin, enda hafa þeir ekkert borgað í hítina sjálfir. Þann tíma þurfa þeir að kaupa eigin heilbrigðistryggingar, eigin atvinnuleysistryggingar og vera alveg sjálfbærir með húsnæði og allar nauðsynjar. Besta leið til að aðlagast nýju landi er að vinna við hlið heimamanna og öðlast sjálfstæði og virðingu, óháðir bitlingum annarra. Aðgangur að skólakerfinu ætti þó að vera öllum opin, því menntakerfið vinnur með aðlögun. Hár framfærslukostnaður og takmarkað framboð starfa mun síðan sjá um viðhalda eðlilegri fjölgun innflytjenda miðað við þarfir markaðsins, án þess að hönd hins opinbera þurfi að koma nærri. Hví í ósköpunum ættu t.d. „flóttamenn“ frá láglaunalöndum eins og Albaníu, þar sem meðallaunin eru um 300 kr á tímann, að reyna að setjast að í miklum mæli á Íslandi, sem er eitt dýrasta land á jarðarkringlunni. Þeir hefðu aldrei efni á að búa hér. Hæfir sjálfbærir einstaklingar myndu hins vegar sjá tækifærið í slíkri fordómalausri innflytjendastefnu og gætu ákveðið að flytjast hingað, með verulegum ávinningi fyrir íslenskt efnahagslíf. Landvistarleyfið yrði síðan að vera skilyrt, og ef að í ljós kæmi að um hættulegan einstakling væri að ræða, vegna glæpahegðunar eða tengsla við hryðjuverkahópa þá yrði að vísa viðkomandi umsvifalaust úr landi, óháð upprunalandinu. Svona innflytjendastefna þar sem að góðgerðarfélög ein sinna góðgerðarmálum og ríkið leyfir atvinnurekendum að ráða eigin mannaráðningum, er ekki ný af nálinni og hefur verið reynd áður. Úr varð best heppnaða innflytjendatilraun allra tíma. Bandaríkin.

#g #gJóhannesLoftsson

Related Posts

See All

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square