Sá sem græðir er ekki sá sem borgar

Flutningur innanlandsflugs er ekki hugsuð út frá hagsmunum skattgreiðenda

Helsta vandamál Útópía er að þær rætast aldrei nákvæmlega eins og vonir standa til. Því meira sem eyrunum er lokað fyrir gagnrýnni umræðu, því fjarstæðukenndari verður útópían og vonbrigðin meiri þegar kaldur raunveruleikinn blasir við. Vatnsmýrarbyggð eru dæmi um slíka útópíu, þar sem bjartsýnisspár hafa kæft skynsamlega umræðu og gert marga grandvaralausa um raunverulegar afleiðingar lokunar Reykjavíkurflugvallar. Hæst hafa skýjaborgirnar náð í hagkvæmniathugunum þar sem hreint ótrúlegustu staðhæfingum hefur verið haldið fram af virtum stofnunum. Hagkvæmnigreining „Rögnuskýrslu“, var unnin án tillits til kostnaðar. Þar fékkst ábati upp á allt að 123 milljarða, þar sem menn gáfu sér þá fáránlegu forsendu að allt innanlands og millilandaflug flyttist í Hvassahraun. Einnig fundu menn út svo háan ferðasparnað af Vatnsmýrarbyggðinni að það samsvaraði hátt í 10 milljónum á hverja íbúð sem þar mun koma. Sérfræðingarnir virðast hafa verið svo blindaðir af útópíunni að lítið rúm var fyrir gagnrýna hugsun. Grundvallarforsenda ferðasparnaðarvangaveltanna er hins vegar röng. Það mun enginn íbúi græða á ferðasparnaði í miðbænum, því íbúðaverð þar er mun hærra en annars staðar. Einu sem sleppa við að borga eru launalausir námsmenn í niðurgreiddum stúdentaíbúðum. Sá sparnaður er fjármagnaður af skattgreiðendum og telst því varla með. Margir af þeim sem þjónusta ferðamannaiðnaðinn í miðbænum eru heldur ekki með það há laun að hafa efni á að búa á dýrasta stað í bænum. Enginn ferðasparnaður er heldur fyrir þá sem búa í miðbænum en vinna í ódýru úthverfi. Þeim fer sífellt fjölgandi því fyrirtækin eru í dag að leita í síauknum mæli í úthverfi, eftir að þéttingastefnan hefur úthýst þeim úr grónum hverfum. Vegna einföldunar reiknimódelsins þá er hins vegar ekki tekið tillit til þessa, og því virðist meintur ferðasparnaður vera hreinar getgátur. Fasteignafyrirtækin munu síðan hirða megnið af mögulegum gróða. Svipaðs misskilnings gætti í nýlegri frétt frá greiningadeild Arion banka þar sem virtist litið á verðmun fasteigna í miðbænum og í úthverfi sem hagnað, og gefið í skyn að verðmunhagnaðinn fyrir alla Vatnsmýrarbyggðina (alls 143 milljarða) mætti nýta að hluta til að bæta landsbyggðinni „tjónið“ af lokun Reykjavíkurflugvallar. Markaðir virka hins vegar ekki svona. Ekki er hægt að frysta samkeppni og gefa sér að núverandi fasteignabóla standi til eilífðarnóns. Enn fremur, þá er það sá sem byggir sem mun hirða megnið af hagnaðinum en ekki ríkið. Hlutur ríkisins sem landeiganda er svo lítill að það er langt því frá að hann dugi upp í lágmarkskostnað. Vandamálið við ríkisrekna flugvelli er ábyrgðarleysið, þar sem skattgreiður borga öll mistök á endanum. Síðastliðinn ágúst var birt skýrsla um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar þar sem í fyrsta sinn var reynt að meta söluverðmæti ríkisins af Vatnsmýrarlandinu. Í ljós kom að hlutur ríkisins verður líklega ekki nema 8-12 milljarða eða innan við tíundi hluti af meintum ábata sérfræðinganna. Meginniðurstaða skýrslunnar var síðan að vegna öryggissjónarmiða þá yrðu að vera tveir flugvellir á Suðvesturhorni landsins. Áætlað frumkostnaðarmat fyrir einfalda útgáfu af Hvassahraunsflugvelli er hins vegar 40-50 milljarðar samkvæmt skýrslunni, þ.a. söluverðmætið dugar engan vegin til. Þessi kostnaður á án efa eftir að hækka þar sem að um fyrsta mat á óhönnuðum flugvelli er að ræða. Að gróði fasteignabraskara í Vatnsmýrinni verði þannig að fullu fjármagnaður með skattfé, verður að teljast algjörlega óásættanlegt í frjálsu samfélagi. Opnum neyðarbrautina í vetur Fjártjón má bæta, en líf verður ekki aftur tekið. Því er bjartsýni í öryggismálum mun alvarlegra mál en þegar hagkvæmnispekúlantarnir gleyma sér í útópíunni. Útreikningar sem rökstuddu lokun neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar voru svo gallaðir að meira að segja alþjóðaflugmálastofnunin tók undir gagnrýnina. Á sex mánaða tímabili síðasta vetur, þá kom 25 daga upp aðstæður þar sem að neyðarbrautin var eina nothæfa flugbrautin fyrir sjúkraflug hefði hún verið opin. Þetta hafði áhrif á fjögur forgangs tilfelli og hrein heppni að ekki hlaust skaði af. Neyðarbrautin sem var lokað á síðasta ári var aldrei notuð nema í neyð, og var því ekki að valda neinum ónæði. Eini aðilinn sem græddi á lokun brautarinnar var fasteignafélagið sem vill byggja háhýsi við enda brautarinnar. Nú er ljóst að nauðsynlegt verður að byggja nýja slíka flugbraut á SV horninu, og er kostnaður við endurbyggingu 0725 brautarinnar í Keflavíkurflugvelli áætlaður yfir milljarð. Sem þó leysir bara hluta vandans því Reykjanesbrautin er oft illfær þegar neyðarbrautar er þörf. Hagnaður fasteignafélagsins er þannig fjármagnaður af skattfé. Nú er hins vegar vetur brostinn á og ekkert er búið að gerast. Í ljósi þess að enn er ekkert nema eitt pennastrik sem kemur í veg fyrir að hægt verði að nota neyðarbrautina, þá mættu nú alveg skoða það hvort ekki væri hægt að opna brautina til bráðabyrgða nú í vetur þegar mest á reynir, þ.a. líf sjúklinga verði ekki sett aftur í hættu að óþörfu.

#g #gJóhannesLoftsson

Related Posts

See All

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square