TJÁNINGARFRELSIÐ ER EKKI BARA TIL SÝNIS


Þegar hæstaréttardómar féllu nýlega vegna haturorðslöggjafarinnar, þá sendi Frjálshyggjufélagið eftirfarandi tilkynningu á nokkra íslenska fjölmiðla. Enginn þeirra birti samt yfirlýsinguna, þrátt fyrir að halda mætti að tjáningarfrelsi væri eitthvað sem varðaði fjölmiðla sérstaklega. Þetta þótti okkur aðeins undarlegt þar sem að sömu fjölmiðlar hafa ekki hikað við að tala gegn þöggun mála sem þeirra eigin hagsmuni varðar. En það að styðja bara tjáningu á málefnum sem fólk er sammála flokkast ekki sem stuðningur við tjáningarfrelsið. Tjáningarfrelsi þýðir óskorað frelsi allra til að tjá sig um allt sama hversu óþægilegar, öfgafullar eða jafnvel dónalegar skoðanirnar eru. Bæði getur slík opin umræða komið í veg fyrir þá vafasömu þróun sem getur orðið ef fólk byrjar að forðast að ræða viðkvæm málefni, en auk þess þá er mikilvægt er að fá öfgarnar upp á yfirborðið þannig að hægt sé að takast á við þær á gagnrýninn hátt.

Nú stendur til að núverandi ríkisstjórn ætlar að fara yfir lagaumgjörð tjáningarfrelsisins, og því er mikilvægt að þeir sem komi að því tali fyrir raunverulegu tjáningafrelsi, en ekki bara útvíkkun á tjáningarfrelsi sinna skoðanabræðra og systra.

Upphafleg tilkynning frjálshyggjufélagsins í tilfefni dóms hæstaréttar sem send var morgunblaðinu, vísi og dv í desember í fyrra:

--------------------------------------------------------------------- VERJUM TJÁNINGARFRELSIÐ BETUR Í STJÓRNARSKRÁNNI

Frjálshyggjufélagið harmar þá hatursorðræðudóma sem féllu í Hæstarétti þann 14. desember þar sem dónaleg ummæli voru dæmd ólögmæt. Dómurinn undirstrikar hversu litla vörn stjórnarskrá Íslands veitir tjáningarfrelsinu þar sem 73. grein leyfir að setja megi tjáningarfrelsinu skorður til að verja siðgæði manna ef það samrýmist lýðræðishefðum.

Þetta skilyrði er svo loðið að lög svipuð og þau sem Rússar settu nýlega um takmörkun tjáningarfrelsis samkynhneigðra, hefðu vel getað samræmst íslensku stjórnarskránni fyrr á tímum þegar viðhorfin voru fordómafyllri en þau eru nú.

Með dóminum bættust tveir einstaklingar til viðbótar í þann hóp Íslendinga sem hafa verið sektaðir fyrir orð sín. Þórbergur Þórðarson rithöfundur komst einnig í þann hóp á sínum tíma þegar hann var sektaður fyrir að kalla Hitler sadista.

Lagaumhverfið er í dag það huglægt að meira að segja lögfróðir menn gætu átt í erfiðleikum með að vita hvað má segja og hvað ekki. Má smána barnagirnd? Hvað með flutning passíusálma sem Wiesenthal stofnunin hefur mótmælt vegna gyðingahaturs? Hvað með að smána Trump? Viðurlög við smánun erlends þjóðhöfðingja geta verið allt að 6 ára fangelsi.

Opin umræða verður að vera frjáls og án takmarkana og það er ekki hægt að setja löggjöf gegn dónaskap án þess að skerða réttindi allra til að tjá sig á gagnrýninn hátt um mikilvæg málefni líðandi stundar.

Tjáningarfrelsið er hornsteinn frelsisins og því ein mikilvægustu réttindi okkar. Frjálshyggjufélagið vill því hvetja stjórnvöld til að beita sér fyrir endurskoðun stjórnarskrár og þeirra lagaákvæða sem takmarka tjáningarfrelsið, því tjáningarfrelsið verður að verja.

Stjórn Frjálshyggjufélagsins.

------------------------------------------------------------------


Related Posts

See All

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square