Mestu Hamfarir Íslandssögunnar

Mestu hamfarir Íslandssögunnar voru af manna völdum

15. öld fór vel af stað fyrir Íslendinga. Hingað komu enskir sjómenn sem vildu veiða fisk og kaupa skreið. Íslenskur sjávarútvegur fór að vakna til lífsins og við tók tími framfara og kapítalisma með meiri auðsöfnun en áður hafði þekkst. Framförunum fylgdi þó umrót sem ógnaði stöðugleika valdastéttarinnar því sífellt fleiri völdu fiskiðnaðinn fram yfir bústörfin. Til að vernda þá gegn samkeppni var Píningsdómi komið á með vistaböndunum og banni við vetrarsetu útlendinga. Þetta dró mátt úr hagkerfinu og auðveldaði Danakonungi síðar að herða tökin. Lítil mótstaða var því uppi þegar Danakonungur fór í stórátak að „efla danska verslun og sjómennsku“ með því að koma á danskri einokun.

Þvert á móti sáu ýmsir Íslendingar sér hag í stöðugleikanum þar sem útlendingum var áfram bönnuð vetrarseta. Skammtímahagsmunir réðu svo enn meira för þar sem verslunarrétturinn var reglulega seldur á uppboði og því höfðu kaupmenn engan hag í því að fjárfesta í íslenskri framleiðslu. Til að koma í veg fyrir okur, þá var verðlag á allri vöru fest í 160 ár. Fiskur var verðlagður það lágt að allur arður hvarf og var notaður til að niðurgreiða íslenskan landbúnað og hagnað kaupmannsins. Of lágt verð á mjöli varð til þess að kaupmenn fluttu frekar inn áfengi en slíka nauðsynjavöru og of hátt verðlag á peningum gerðu vöruskipti allsráðandi. Enginn gat safnað pening eða eignast inneign hjá kaupmanni og því var ekki hægt að spara til mögru áranna. Afar ströng viðurlög voru við brotum á einokunarreglunum, þ.a. dæmi voru um að sjómenn voru neyddir til að selja allan sinn afla í því verslunarumdæmi sem honum var landað í , meira að segja á tímum hungursneyðar þegar fjölskyldan þeirra var að svelta í hel. Ríkisbáknið var síðan óheyrilega þungt og ósveigjanlegt og meira að segja á 2. ári móðuharðindanna þegar þúsundir íslendinga voru þegar farnir að deyja úr hungri, þá var ekkert slakað til og fluttur út fiskur eins og í meðalári. Embættismenn sáu reyndar alveg í hvað stefndi en það tók þá heilt ár að taka ákvörðun. Þegar einokunarversluninni var komið á var eins og öll orka hyrfi úr íslenskri þjóð. Nýsköpunargleði einkaframtaksins vék fyrir afturhaldi sérhagsmuna og litið var á allar breytingar til framfara sem ógn við stöðugleika. Hvati í fiskveiðum að gefa hásetum hlut af afla var smám saman bannaður af ótta við að fækka mundi í sveitum. Engin framþróun var í veiðiaðferðum, aðeins vestfirðingar notuðu sökkur, enginn kunni að nota net og þilskipaútgerðin fór ekki af stað því góðar hafnir vantaði. Þegar Danir reyndu að koma slíkri útgerð á settu íslendingar það skilyrði að skipin yrðu mönnuð útlendingum. Stöðugleikanum varð að viðhalda. Undir lok einokunarinnar voru einkum Íslendingar sem voru heitustu stuðningsmenn kerfisins, því þeir trúðu að einokun væri eina leiðin til að tryggja öryggi í verslun. Það var því engin tilviljun að sjálfstæðisbarráttan hófst sem frjálshyggjuvakning sem beint var að þessum viðskiptahindrunum. Þegar Jón Sigurðsson fór að tala fyrir verslunarfrelsi, var hann ekki bara að tala við dönsk yfirvöld, heldur var hann að reyna að vekja íslenska þjóð úr doða vanþekkingar svo hún áttaði sig á skaðanum sem að ríkisafskiptin af verslun voru að valda. Þegar horft er til baka þá hefði saga Íslands líklega orðið önnur og hagsældari ef viðhorf Íslendinga til verslunar hefðu verið opnari og þéttbýliskjarnar og útgerð hefðu fengið að þróast eðlilega. Mun erfiðara hefði verið fyrir Danakonung að beita Íslendinga því harðræði ef hér hefði verið öflug borgarastétt með ríka hagsmuni í frjálsri verslun og þróun líklega orðið nær því sem gerðist í Noregi. Þá hefðu Íslendingar verið 350 þúsund strax um aldamótin 1800 og mögulega hefði Jan Mayen orðið íslensk og íslensk byggð ekki lagst af á Grænlandi.

Mynd 1. Mannfjöldaþróun á Íslandi hefði orðið önnur hefði atvinnulíf fengið að þróast eðlilegar.

Mynd 2. Fiskútflutningur í Norður Atlantshafi. (Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland)

Ekkert lært af sögunni Nú er brátt öld liðin frá stærsta sigri barráttunnar sem frjálshyggjumaðurinn Jón Sigurðsson hóf. Kjarninn í boðskap Jóns hefur þó gleymst. Íslensk stjórnvöld eru í síauknum mæli farin að taka upp iðju forvera sinna og þvinga fram fákeppni og einokun í nafni þess að „efla íslenskan iðnað“ eða til að „tryggja öryggi þjónustunnar“. Afleiðingarnar eru þær sömu og áður, stöðnun efnahagslífsins og skert lífsgæði. Þeir sem nota þjónustuna fá ekkert um hana að segja og þeir sem veita hana hafa engan hvata að bæta hana. Enn er búsetuþróun þvinguð og sveitarfélög sem græða á húsnæðisbólum fá að einoka skipulagsmál. Í samgöngum skilar bara þriðjungur vegafés sér aftur í vegina og innanlandsflugi hrakar ár frá ári því enginn má græða á flugvallarrekstri. Skóla og heilbrigðiskerfið er síðan meira rekið fyrir þarfir kerfisins en fólksins sem þarf á þjónustunni að halda. Skattbyrðin vex sífellt því sóunin er stjórnlaus þar sem ekkert aðhald er á eyðslu fés sem enginn ber ábyrgð á. Enginn hefur val lengur því allir stjórnmálaflokkar eru að róa fram af sama hengiflugi, þó mishratt sé. Er ekki komið mál að linni. Er ekki kominn tími til að endurvekja sjálfstæðisbarráttu frjálshyggjunnar fyrir sjálfstæði einstaklingsins frá ofríki ríkisins.

#gJóhannesLoftsson

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square