Fríverslun Fyrir Frið


Ísland ætti frekar að auka verslun við Ísrael en að hvetja til viðskiptaþvingana á Eurovision

Í hvert sinn sem við verslum, erum við ekki bara að viðurkenna virði vörunnar sem við kaupum, heldur líka virði seljandans. Hvati seljandans er þannig tvöfaldur. Hann er bæði að selja vöru og viðskiptavild.

Sú gagnkvæma virðing sem fylgir viðskiptatengslum byggir þannig smám saman upp traust og jafnvel vináttu milli ólíkra einstaklinga sem ella hefðu aldrei átt samleið. Með vaxandi viðskiptum eykst jafnframt velferð og með aukinni velferð fjölgar þeim hafa einhverju að tapa ef viðskiptahagsmunum er ógnað. Þessi friðarhvati sem fylgir kapítalisma er vel þekktur og var t.d. ein af meginröksemdum fyrir stofnun Evrópusambandsins.

Andstætt þessu þá er þekkt að slæmt efnahagsástand eru aðstæður sem lýðskrumarar nota til að ala á fordómum og hatri, sem oft leiðir til blóðsúthellinga. Þannig komu bæði franska byltingin og októberbyltingin í kjölfar slæms efnahagsástands og þegar Hitler komst til valda þá var þriðji hver þjóðverji atvinnulaus.

Í dag er um 30% atvinnuleysi í Palestínu sem gerir það að því landi í heiminum þar sem atvinnuleysi er hvað mest. Þar af er ástandið á Gasa verst þar sem atvinnuleysið er yfir 50%. Slíkar vonleysis aðstæður eru einmitt umhverfi þar sem hatursfullar öfgar eiga hvað auðveldast með að ná fótfestu. Hvert atvinnutækifæri sem býðst, býr til mótvægi gegn öfgunum og er því gríðarlega mikilvægt. Þar af eru störf þar sem Palestínumenn vinna við hlið Ísraela einna mikilvægust, því þau fjölga þeim Palestínubúum sem hafa mestan hag af friðsamlegri sambúð við Ísrael. Þetta sjá þó ekki allir.

600 missa vinnuna á Vesturbakkanum

Árið 2015 lokaði Sodastream verksmiðju sinni á Vesturbakkanum vegna þrýstings frá BDS samtökunum (Boycott, Divestment and Sanctions) sem berjast fyrir sniðgöngu á vörum framleiddum á Vesturbakkanum. Ekki er hægt að hugsa sér meira vanhugsaðra lýðskrum, því með störfunum sem töpuðust jókst enn á þá neyð sem er undirrót margra þeirra öfga sem ríkja á svæðinu.

Framlag Íslands í Eurovision í ár er nokkuð sérstakt, því ekki er betur séð að þar sé á ferð úthugsaður áróðursgjörningur á vegum þessara samtaka. Hljómsveitarmeðlimir hafa talað fyrir sniðgöngu Ísrael, í atriðinu eru allir klæddir BDS-M klæðnaði og hafi einhver efast um tengslin þá fór hvarf sá efi á þegar hljómsveitarmeðlimir þóttust auglýsa Sóda Dream drykk á úrslitakvöldinu. Allt er þetta kynnt til sögunnar sem einhvers konar listrænt grín, en erfitt er að sjá húmorinn í þeirri illkvittni að hlakka yfir atvinnumissi fátækra Palestínubúa.

Fulltrúar Íslands á Eurovision eru að hvetja til sniðgönguherferðar gegn gestgjöfunum í nafni Íslands.

Fríverslun fyrir frið Íslensk stjórnvöld þurfa hins vegar ekki að láta öfgasamtök stýra samskiptum okkar við vinaþjóðir. Í stað þess að bæta á vanda svæðisins með áróðri sem ýtir undir atvinnuleysi þá ættum við að verða hluti af lausninni og reyna að efla atvinnulíf í Palestínu. Íslensk stjórnvöld ættu því strax að hefja viðræður um að víkka út núverandi fríverslunarsamninga við Ísrael og Palestínu með það að markmiði auka viðskiptin. Með athyglinni sem hinn vanhugsaði Eurovisiongjörningur gæfi, þá væri aldrei að vitanema fleiri þjóðir fylgdu í kjölfarið, sem gæti þar með orðið upphafið að nýrri nálgun við lausn þessarar flóknu deilu. Fríverslun fyrir frið þar sem allir græða.


Related Posts

See All

FRELSISMOLI VIKUNNAR

NÝLEGAR FRELSISFRÉTTIR

Archive
Search By Tags
No tags yet.
Follow Us
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square